Friðarhlaup á vallarvígslu

Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum hófst á Selfossvelli í dag en í upphafi móts var nýi frjálsíþróttavöllurinn við Engjaveg vígður.

Formaður bæjarráðs, Eyþór Arnalds, flutti ávarp ásamt Grími Hergeirssyni, formanni Umf. Selfoss og Stefáni Halldórssyni, formanni Frjálsíþróttasambands Íslands.

Að því loknu blessaði sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson mannvirkið og eftir það hlupu hlauparar einn hring um völlinn með kyndil Friðarhlaupsins. Þar fór fremst í flokki Kenýakonan Tegla Lorupe, boðberi friðar hjá Sameinuðu þjóðunum og margfaldur heimsmeistari í maraþoni og hálfmaraþoni.

Nýi frjálsíþróttavöllurinn er stórglæsilegt mannvirki og best búni frjálsíþróttavöllur landsins. Meistaramótið er fyrsta stóra mótið sem fram fer á vellinum en tuttugu ár eru liðin frá síðasta stórmóti í frjálsum á Selfossi.