Fremsta taekwondofólk Norðurlandanna á Selfossi

Um helgina fóru fram Team Nordic æfingabúðir í taekwondo á Selfossi. Í Team Nordic koma saman bestu iðkendur og þjálfarar á Norðurlöndunum og eru æfingarnar mjög hnitmiðaðar.

Æfingabúðir Team Nordic eru haldnar þrisvar sinnum á ári og dvöldu rúmlega fimmtíu iðkendur ásamt þjálfurum við gott yfirlæti á Selfossi frá föstudegi til sunnudags, en æfingarnar fóru fram í Iðu. Hópurinn var afar ánægður með dvölina á Selfossi enda kappkostuðu fulltrúar taekwondodeildar Umf. Selfoss að bjóða upp á glæsilega helgi.

Team Nordic gengur undir viðurnefninu „Champion factory“ innan taekwondoheimsins en um helgina mátti meðal annars sjá fremstu taekwondomenn heimsins í unglingaflokkum og væntanlega Ólympíufara.

Þrír iðkendur taekwondodeildar Umf. Selfoss hafa undanfarin misseri átt fast sæti í Team Nordic liðinu. Þetta eru systkinin Daníel Jens Pétursson og Dagný María Pétursdóttir og einnig fremsta taekwondokona landsins, Ingibjörg Erla Grétarsdóttir. Þetta voru fjórðu æfingabúðirnar þeirra á árinu en ef iðkendur sýna ekki framfarir á milli æfingabúða missir það sæti sitt í hópnum.

Í síðustu æfingabúðum sem fram fóru í Króatíu áttu Selfyssingar helming iðkendanna frá Íslandi. Það segir meira en mörg orð um stöðu deildarinnar sem státar af þjálfurum og nemendum sem eiga sæti í þessum æfingabúðum.

Auk þeirra Daníels, Dagnýjar og Ingibjargar fengu allir svartbeltingar á vegum taekwondodeildar Umf. Selfoss að njóta æfinganna sem gestir auk þess að keppa gegn alþjóðlegum keppendum.

Fyrri greinNý vefsíða full af upplýsingum
Næsta greinNý sýning undir stiganum