„Framtíðin er okkar“

Kvennalið Selfoss í handbolta er komið í sumarfrí eftir að hafa veitt deildar- og bikarmeisturum Gróttu verðuga mótspyrnu í 8-liða úrslitum Olísdeildarinnar.

Annar leikur liðanna fór fram í Vallaskóla í kvöld, þar sem Grótta sigraði 21-29 og þar með einvígið 2-0.

„Ég er mjög stoltur af mínu liði. Við gáfum allt í þetta en meirihlutinn af leikmannahópnum er ekki til staðar vegna meiðsla. Við gerðum okkar besta undir þessum kringumstæðum og margir leikmenn sem áttu ekki von á að vera í einhverju hlutverki í þessu einvígi spiluðu helling og stóðu sig vel. Ég er bara ánægður og ef þessi frammistaða sýnir fólki ekki að framtíðin er okkar, þá veit ég ekki hvað,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Leikurinn var jafn framan af, en Selfoss skoraði ekki mark á rúmlega tuttugu mínútna kafla í fyrri hálfleik og upphafi þess seinni. Þar breytti Grótta stöðunni úr 7-8 í 8-18, en staðan var 7-16 í hálfleik.

Ekki bætti úr skák að Harpa Brynjarsdóttir meiddist illa á hné þegar rúmar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum og riðlaði það leik Selfossliðsins nokkuð.

Þrátt fyrir áföllin í fyrri hálfleik voru Selfyssingar sterkari lengst af síðari hálfleik, þar sem þær minnkuðu muninn niður í sex mörk og með örlítilli kænsku í vörn og sókn hefðu þær getað komist ennþá nær. Það gekk ekki eftir og Grótta jók muninn aftur rétt undir leikslok.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst hjá Selfyssingum með 13/4 mörk, þar af skoraði hún tíu af fjórtán mörkum liðsins í seinni hálfleik. Thelma Sif Kristjánsdóttir skoraði 4 mörk, Carmen Palamariu 3/1 og Harpa Brynjarsdóttir 1.

Áslaug Ýr Bragadóttir varði 5 skot í marki Selfoss og var með 27% markvörslu og Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 3 skot og var með 16% markvörslu.

Fyrri greinFannst látinn á Hótel Örk
Næsta greinÞrenna frá Henry kláraði leikinn