Framlengt í fyrsta leik Hamars og Selfoss

Jose Aldana skoraði 33 stig fyrir Hamar og Sveinn Búi Birgisson 17 fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Framlengingu þurfti til að knýja fram úrslit í fyrstu viðureign Hamars og Selfoss í undanúrslitum 1. deildar karla í körfuknattleik en liðin mættust í Hveragerði í kvöld.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en staðan var jöfn í leikhléi, 53-53. Selfyssingar höfðu frumkvæðið í 3. leikhluta en um miðjan 4. leikhluta settu Hamarsmenn niður tvo þrista í röð og komust yfir, 91-89. Selfyssingar komust aftur yfir en Ruud Lutterman jafnaði 98-98 með troðslu þegar þrjár sekúndur voru eftir og tryggði Hamri framlengingu.

Í framlengingunni reyndust Hamarsmenn sterkari en Selfyssingum gekk illa að klára sóknir sínar og Hamar vann 105-101.

Jose Aldana átti stórleik fyrir Hamar, skoraði 33 stig, tók 10 fráköst og sendi 20 stoðsendingar. Ruud Lutterman kom næstur með 22 stig og 12 fráköst. Hjá Selfyssingum var Terrence Motley stigahæstur með 35 stig og 7 stoðsendingar og Kennedy Aigbogun skoraði 20 stig.

Næsta viðureign liðanna fer fram í Gjánni á Selfossi á föstudaginn.

Tölfræði Hamars: Jose Aldana 33/10 fráköst/20 stoðsendingar, Ruud Lutterman 22/12 fráköst/5 stoðsendingar, Ragnar Jósef Ragnarsson 20/4 fráköst, Pálmi Geir Jónsson 18/5 fráköst, Steinar Snær Guðmundsson 8, Óli Gunnar Gestsson 4.

Tölfræði Selfoss: Terrence Motley 35/4 fráköst/7 stoðsendingar, Kennedy Aigbogun 20/13 fráköst/6 stoðsendingar, Kristijan Vladovic 19/4 fráköst/6 stoðsendingar, Sveinn Búi Birgisson 17/12 fráköst/5 stoðsendingar, Arnór Bjarki Eyþórsson 7/4 fráköst, Owen Young 3.

Fyrri greinFangi dæmdur í tíu mánaða fangelsi
Næsta greinOrkan úr óþefnum!