Selfoss heimsótti Fram í úrvalsdeild karla í handbolta í Lambhagahöllina í gærkvöldi þar sem Framarar unnu öruggan sigur, 38-29.
Framarar voru feti framar í upphafi leiks en Selfyssingar aldrei langt undan. Það var ekki fyrr en á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks að það dró almennilega í sundur með liðunum og Fram leiddi 17-13 í hálfleik.
Fram byrjaði seinni hálfleikinn á 5-1 áhlaupi og eftirleikurinn var erfiður fyrir Selfyssinga. Fram náði mest tólf marka forskoti en Selfoss klóraði aðeins í bakkann á síðustu mínútum leiksins.
Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 7/5 mörk, Gunnar Kári Bragason skoraði 5, Anton Breki Hjaltason 4, Guðjón Baldur Ómarsson og Haukur Páll Hallgrímsson 3, Valdimar Örn Ingvarsson 2, Tryggvi Sigurberg Traustason 2/1 og þeir Álvaro Mallols, Árni Ísleifsson og Elvar Elí Hallgrímsson skoruðu 1 mark hver.
Alexander Hrafnkelsson varði 9 skot í marki Selfoss og var með 27% markvörslu og Philipp Seidemann varði 4 skot og var með 22% markvörslu.
Selfoss er í 10. sæti deildarinnar með 9 stig en Fram er í 7. sæti með 14 stig.

