Selfoss heimsótti Fram í 2. umferð úrvalsdeildar kvenna í handbolta í dag. Eftir jafnan fyrri hálfleik tóku Framarar völdin í þeim síðari og sigruðu að lokum 40-31.
Selfoss leiddi á upphafsmínútunum og náði mest þriggja marka forskoti þegar tíu mínútur voru liðnar, 6-9. Fram jafnaði 11-11 þegar sautján mínútur voru liðnar og þær bláu voru sterkari á lokamínútum fyrri hálfleiks, þar sem þær breyttu stöðunni úr 16-16 í 21-17.
Fram leiddi allan seinni hálfleikinn og náði sjö marka forystu áður en Selfoss klóraði lítillega í bakkann. Fram jók forskotið svo aftur undir lokin og sigraði að lokum með níu marka mun.
Ída Bjarklind Magnúsdóttir var markahæst Selfyssinga með 9 mörk, Mia Kristin Syverud skoraði 5/2, Harpa Valey Magnúsdóttir 4, Hulda Dís Þrastardóttir 4/3, Arna Kristín Einarsdóttir 3, Hulda Hrönn Bragadóttir 2 og þær Adela Eyrún Jóhannsdóttir, Eva Lind Tyrfingsdóttir og Sara Dröfn Richardsdóttir skoruðu allar 1 mark.
Selfoss er í 8. sæti deildarinnar, án stiga eftir tvær umferðir, en Fram er í 6. sætinu með 2 stig.

