Fram stakk Selfoss af

Selfyssingar tóku á móti Fram í N1-deild karla í handbolta í kvöld. Gestirnir sigruðu, 38-30.

Selfyssingar byrjuðu betur með Birki Fannar Bragason heitan í markinu og Ragnar Jóhannsson ógnandi í sókninni. Birkir varði vel í upphafi og Ragnar skoraði fimm af fyrstu sjö mörkum Selfoss.

Selfoss leiddi 3-2 þegar Framarar tóku við sér og skoruðu sex mörk í röð, 3-8. Ekkert gekk hjá Selfyssingum, hvorki í vörn eða sókn en staðan var 9-19 í hálfleik.

Framarar stungu Selfyssinga svo endanlega af í upphafi seinni hálfleiks. Fram náði mest þrettán marka forskoti, 11-24. Selfyssingar tóku við sér og minnkuðu muninn en hann varð átta mörk að lokum.

Ragnar Jóhannsson var markahæstur Selfyssinga með 13 mörk, Guðjón Drengsson skoraði 6 mörk, Atli Hjörvar Einarsson 3, Hörður Bjarnarson, Eyþór Lárusson og Matthías Halldórsson 2 og þeir Guðni Ingvarsson og Gunnar Jónsson gerðu sitt markið hvor.

Selfoss hefur nú tapað sex leikjum í röð og situr á botninum með tvö stig.

Fyrri greinJóhanna Guðmunds: Frambjóðandi nr. 5317
Næsta greinGrunur um íkveikju