Frábært að geta haldið þetta mót á Selfossi

Vésteinn Hafsteinsson á blaðamannafundi Selfoss Classic í miðbæ Selfoss í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Ég held að þetta geti orðið gott á morgun. Við erum að fara inn í annað mót sumarsins og strákarnir eru að koma vel undan vetri og þetta verður alltaf betra og betra. Við erum búnir að eiga góða daga á Selfossi og móttökurnar hafa verið frábærar,“ segir Selfyssingurinn Vésteinn Hafsteinsson, kringlukastsþjálfari. Á morgun verður boðsmótið Selfoss Classic haldið á Selfossvelli og hápunktur þess er kringlukastskeppni með keppendum á heimsmælikvarða.

Vésteinn þjálfar þá Daniel Ståhl og Simon Pettersen sem unnu gull og silfur á Ólympíuleikunum í Tókýó í fyrra. Þeir mæta til leiks á morgun ásamt sterkum Norðmanni, Sven Martin Skagestad, Íslandsmeistaranum Guðna Val Guðnasyni og Bandaríkjamanninum Sam Mattis.

Sunnlenska.is hitti Véstein í miðbæ Selfoss í dag þar sem blaðamannafundur fyrir Selfoss Classic var haldinn.

Stórt fyrir mig
„Það kom upp fyrir svona hálfu ári að þetta mót gæti orðið að veruleika á 75 ára afmælisári frjálsíþróttasambandsins. Aðalbjörg systir og Jón Birgir Guðmundsson hafa verið drifkraftarnir í þessu með Helga Haraldssyni hjá frjálsíþróttadeild Selfoss og Guðmundi Karlssyni hjá FRÍ. Það er frábært að geta haldið þetta mót á Selfossi og stórt fyrir mig. Strákarnir eru að koma hingað og keppa fyrir mig, þeir eru ekki að koma hingað útaf peningum og þeir eru að fá þvílíkar móttökur. Við erum búnir að vera að æfa bæði inni og úti hér á Selfossi og það er fullt af fólki búið að koma að horfa á,“ segir Vésteinn, sem er ánægður með aðstæðurnar á Selfossi.

„Fínn völlur, góðir hringir, búið að slípa hringina og undirbúa þetta vel og veðurspáin er góð. Aðstæðan til inniæfinga í Selfosshöllinni er líka frábær og ég óska bara öllum til hamingju með þetta nýja hús. Ég verð að segja alveg eins og er að þetta er ótrúleg uppbygging í svona litlu bæjarfélagi, það eru 11 þúsund manns hérna í sveitarfélaginu en þú þyrftir svona 120 þúsund manna bæ í Svíþjóð til þess að standa undir þessu. Ég held að þetta hljóti að vera heimsmet. Það er með ólíkindum hvað er búið að gera hérna í uppbyggingu íþróttamannvirkja,“ segir Vésteinn ennfremur.

Komust inn í fjárhúsið á Langstöðum
Vésteinn hélt vel heppnaðan fyrirlestur um feril sinn í FSu í gærkvöldi og lærisveinar hans hafa á milli æfinga þeyst um Suðurland með Rúnari Hjálmarssyni, frjálsíþróttaþjálfara.

„Rúnar er búinn að fara með þá út um allt, Gullfoss og Geysi í dag og Seljalandsfoss í gær. Þeir eru búnir að fara á Urriðafoss og tala við Halla og komast inn í fjárhús hjá Hjálmari á Langstöðum og skoða íslenska hestinn og allt þetta sem þarf að gera. Þetta er frábært, ég er með Önnu, konuna mína með mér og Aðalbjörg systir er að veltast í þessu með mér. Öll systkini mín komu á fyrirlesturinn í gær og Gísli Magg, gamli kennarinn minn og Mummi Jóns og Bjössi rak, það komu allir. Þetta er bara yndislegt,“ segir Vésteinn, en stóra spurningin er hvort hann muni keppa í Grýlupottahlaupinu á morgun.

„Ef Kári Jóns mætir, þá joggum við saman,“ sagði Vésteinn hlæjandi að lokum.

(F.v.) Bergsteinn Einarsson í Set sem er einn styrktaraðila mótsins, Vésteinn Hafsteinsson, keppendurnir Guðni Valur Guðnason, Simon Pettersen, Daniel Ståhl og Sven Martin Skagestad og Freyr Ólafsson, formaður FRÍ. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri grein„Héðan hefur komið mikið af flottu tónlistarfólki“
Næsta greinRúta fór útaf Laugarvatnsvegi