Frábær upphafskafli dugði Mílunni ekki

Hörður Másson, hér í búningi Selfoss í leik gegn Mílunni, var markahæstur Mílumanna í kvöld með 6 mörk. Ómar Vignir Helgason, hér einnig í búningi Selfoss, komst ekki á blað í sókninni en lét finna þeim mun betur fyrir sér í vörninni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Mílan er úr leik í bikarkeppni karla í handbolta eftir myndarlegt 34-17 tap á útivelli í kvöld gegn Íþróttafélagi Reykjavíkur í 16-liða úrslitum keppninnar.

Mílan leikur í utandeildinni en ÍR sem kunnugt er í úrvalsdeildinni. Það var þó ekki að sjá að mikill munur væri á liðunum því Mílan komst í 0-2 í upphafi leiks og allt stefndi í sigur þeirra grænu. Sterk vörn Mílunnar og frábær frammistaða Helga Hlynssonar í markinu varð til þess að ÍR náði ekki að skora mark fyrstu 5:19 mínútur leiksins. Heldur neyðarlegt drengina hans Bjarna Fritzsonar.

Í liði ÍR eru þó öflugir strákar og þeir hrukku upp af værum blundi eftir þennan slaka upphafskafla. ÍR bætti varnarleikinn og lagði mikla áherslu á að stöðva Hörð Másson sem var frábær í upphafi leiks. 

Um leið og ÍR-vélin var komin í gang var óhætt að segja að Mílan hafi ekki átt sér viðreisnar von. Leynivopn eins og Gústaf Lilliendahl skiluðu sínu fyrir Míluna en það var ekki nóg, Breiðhyltingar voru of sterkir fyrir utandeildarliðið. Munurinn var orðinn tólf mörk í hálfleik, 19-7, og jókst enn frekar í seinni hálfleik.

Hörður Másson var markahæstur hjá Mílunni með 4 mörk, Gústaf Lilliendahl skoraði 3 mörk, hvert öðru glæsilegra, Atli Hjörvar Einarsson, Einar Sindri Ólafsson, Björn Freyr Gíslason og Aron Tjörvi Gunnlaugsson skoruðu allir 2 mörk og þeir Trausti Eiríksson og Hjörtur Leó Guðjónsson skoruðu sitt markið hvor.

Helgi Hlynsson og Ólafur Björn Magnússon áttu gott kvöld í marki Mílunnar og vörðu tugi skota.

Sannarlega glæsilegur árangur hjá Þóri Ólafssyni, þjálfara Mílunnar, að koma liðinu alla leið í 16-liða úrslit, en spurning hvort sæti hans fari að hitna í kjölfarið, þar sem stuðningsmenn liðsins og fyrrverandi styrktaraðilar bundu miklar vonir við að komast í undanúrslit í Laugardalshöllinni í vetur.

Harðsnúið lið Mílunnar eftir leikinn gegn ÍR. Ljósmynd/Bóas Bóasson
Fyrri greinAntipov áfram efstur – Hannes vann Adly
Næsta greinUppbygging sextíu rýma hjúkrunarheimilis á Selfossi hafin