Frábær sigur Hamars/Þórs á heimavelli

Jada Guinn átti stórleik fyrir Hamar/Þór í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Botnlið Hamars/Þórs gerði sér lítið fyrir og skellti Njarðvík í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í kvöld. Njarðvíkingar, sem eru í harðri toppbaráttu, þurftu að horfa upp á 89-84 ósigur í Hveragerði. Þetta var annar sigur Hamars/Þórs í deildinni í vetur.

Hamar/Þór hafði frumkvæðið í 1. leikhluta og leiddi að honum loknum, 23-22. Þær sunnlensku gerðu svo frábært áhlaup í upphafi 2. leikhluta, komust í 44-28 og staðan var 53-39 þegar blásið var til leikhlés.

Njarðvíkingar voru sterkari í seinni hálfleiknum, þær minnkuðu muninn í 8 stig í 3. leikhluta og í upphafi þess fjórða hljóp mikil spenna í leikinn þegar gestirnir breyttu stöðunni í 73-70. Hamar/Þór stóðst hins vegar frekari áhlaup frá Njarðvík og kláruðu leikinn með miklum sóma en að lokum skildu fimm stig liðin að.

Ana Clara Paz var stigahæst hjá Hamri/Þór með 25 stig og Jada Guinn átti enn einn stórleikinn, hún var besti maður vallarins með þrefalda tvennu; 24 stig, 14 fráköst og 10 stoðsendingar.

Þrátt fyrir sigurinn er Hamar/Þór enn á botni deildarinnar, nú með 4 stig eins og Ármann, en Njarðvík er í 2. sæti með 22 stig.

Hamar/Þór-Njarðvík 89-84 (23-22, 30-17, 18-24, 18-21)
Tölfræði Hamars/Þórs: Ana Clara Paz 25/4 fráköst, Jada Guinn 24/14 fráköst/10 stoðsendingar, Jovana Markovic 17/4 fráköst, Mariana Duran 11/8 fráköst, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 6, Bergdís Anna Magnúsdóttir 3, Dagrún Inga Jónsdóttir 3.

Fyrri greinUpprættu kannabisframleiðslu í Þorlákshöfn
Næsta greinJarðskjálftahrina við Lambafell