Frábær sigur gegn gamla læriföðurnum

Guðmundur Hólmar Helgason átti frábæran leik fyrir Selfoss. Ljósmynd/Aðsend - Foto Olimpik

Selfoss vann frábæran sigur á Stjörnunni á útivelli í fyrstu umferð úrvalsdeildar karla í handbolta í kvöld, 26-27.

Stjarnan skoraði tvö fyrstu mörk leiksins en Selfoss jafnaði 4-4 og eftir það var nánast jafnt á öllum tölum upp í 13-13. Stjörnumenn skoruðu tvö síðustu mörk fyrri hálfleiks og leiddu 15-13 í leikhléi.

Stjarnan minnkaði muninn í eitt mark í upphafi seinni hálfleiks en þá kom frábær kafli hjá Selfyssingum sem skoruðu fimm mörk í röð og breyttu stöðunni í 16-18. Stjörnumenn svöruðu fyrir sig og jöfnuðu 18-18 en eftir það var mikið jafnræði með liðunum, frábær barátta og jafnt á öllum tölum upp í 22-22 þegar seinni hálfleikur var hálfnaður.

Lokakaflinn var jafn og æsispennandi en Selfyssingar voru skrefinu á undan lengst af. Atli Ævar Ingólfsson skoraði gríðarlega mikilvægt mark af miklu harðfylgi þegar rúm mínúta var eftir af leiknum og í kjölfarið spiluðu Selfyssingar frábæra vörn og unnu boltann aftur í stöðunni 26-27 þegar 50 sekúndur voru eftir. 

Stjarnan spilaði maður á mann í vörninni en Alexander Egan komst í opið færi þegar tíu sekúndur voru eftir. Markvörður Stjörnunnar varði hins vegar glæsilega og Stjarnan brunaði í sókn. Hergeir Grímsson kom hins vegar sínum mönnum til bjargar og stal boltanum glæsilega þegar fjórar sekúndur voru eftir af leiknum.

Frábær sigur Selfyssinga gegn sínum gamla læriföður, Patreki Jóhannessyni, sem þjálfar nú Stjörnuna.

Guðmundur Hólmar maður leiksins
Guðmundur Hólmar Helgason átti frábæran fyrsta leik fyrir Selfoss og skoraði 10/3 mörk, Hergeir Grímsson, Atli Ævar Ingólfsson, Daníel Karl Gunnarsson, Einar Sverrisson og Alexander Már Egan skoruðu allir 3 mörk og þeir Ísak Gústafsson og Tryggvi Þórisson skoruðu eitt mark hvor.

Vilius Rasimas lék mjög vel í marki Selfoss í seinni hálfleiknum en hann varði 15/2 skot.

Fyrri greinRéttarstörf gengu vel í Hrunaréttum
Næsta greinStekkjaskóli rís í Björkurstykki