Þór Þorlákshöfn vann magnaðan sigur á Stjörnunni í úrvalsdeild karla í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld, 99-97.
Stjarnan var skrefinu á undan í 1. leikhluta, þar til Þór skoraði 8 stig í röð undir lok hans og staðan var 25-22 þegar tíu mínútur voru liðnar. Þór hélt frumkvæðinu fyrstu fimm mínúturnar í 2. leikhluta en þá komst Stjarnan yfir, 40-42, og staðan var 50-53 í hálfleik.
Í þriðja leikhluta gekk lítið hjá Þórsurum og Stjarnan jók forskotið. Þeir grænu héldu sér á floti með þriggja stiga körfum en Stjarnan náði 9 stiga forskoti og staðan var 74-83 þegar 4. leikhluti hófst.
Þar áttu Þórsarar frábæra endurkomu, þeir jöfnuðu 87-87 eftir tæpar fjórar mínútur og litu ekki til baka eftir það. Þór var sterkari á lokakaflanum og náði fimm stiga forskoti. Stjarnan minnkaði muninn í blálokin og átti síðustu sóknina en þar stálu Þórsarar boltanum og sigruðu með tveggja stiga mun.
Rafail Lanaras var stigahæstur Þórsara með 33 stig og 6 stoðsendingar, Jakoby Ross skoraði 23 og Lazar Lugic skoraði 14 stig og tók 11 fráköst.
Þórsarar eru áfram í 11. sæti deildarinnar, nú með 4 stig, en Stjarnan er í 9. sæti með 6 stig.
Þór Þ.-Stjarnan 99-97 (25-22, 25-31, 24-30, 25-14)
Tölfræði Þórs: Rafail Lanaras 33/4 fráköst/6 stoðsendingar, Jacoby Ross 23/5 fráköst, Lazar Lugic 14/11 fráköst, Emil Karel Einarsson 12, Djordje Dzeletovic 9/7 fráköst, Skarphéðinn Árni Þorbergsson 8.

