Frábær endasprettur skilaði sigri

Aniya Thomas og Þóra Auðunsdóttir ánægðar með gang mála. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Frábær endasprettur tryggði Hamri/Þór 70-75 sigur, þegar liðið heimsótti ungmennalið Keflavíkur í 1. deild kvenna í körfubolta í dag.

Leikurinn var jafn framan af en í 2. leikhluta voru skotin ekki að detta hjá þeim sunnlensku og Keflavík-U leiddi í leikhléi, 30-25.

Munurinn jókst enn frekar í 3. leikhluta og þegar síðasti leikhlutinn hófst var útlitið ekki bjart hjá Hamri/Þór og Keflavík-U leiddi 52-42. Aniya Thomas og Jóhanna Ágústsdóttir tóku þá til sinna ráða og skoruðu ellefu stig í röð fyrir Hamar/Þór, sem komst yfir 52-53 og eftir það var leikurinn æsispennandi.

Á síðustu tveimur mínútunum skellti Hamar/Þór hins vegar í lás og skoraði síðustu sex stigin í leiknum til þess að tryggja sér 70-75 sigur.

Thomas var stigahæst í liði Hamars/Þórs með 21 stig og 9 fráköst, Jóhanna skoraði 15 stig, Emma Hrönn Hákonardóttir 14, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir skoraði 11 stig og tók 11 fráköst og Hildur Gunnsteinsdóttir skoraði 8 stig og tók 7 fráköst.

Fyrri grein„Meiri karakter með rófunum“
Næsta greinHeiðar og Ingi Rafn aðstoða Bjarna