„Frábært að vinna þennan leik“

Selfoss vann mikilvægan sigur á Haukum í Inkasso-deildinni í knattspyrnu á JÁVERK-vellinum á Selfossi í kvöld. Andy Pew skoraði eina mark leiksins á 90. mínútu.

„Það var frábært að vinna þennan leik. Þetta var sterkur sigur og mér fannst við sýna karakter. Við ætluðum að vinna, en leikurinn fannst mér ekki góður,“ sagði Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Liðin voru jöfn með 11 stig fyrir leikinn og því mikilvægt fyrir bæði lið að ná að landa sigri upp á framhaldið að gera.

„Það sést á því hvernig liðin spiluðu, bæði lið spiluðu mjög þéttan varnarleik og það var erfitt að komast í gegnum Haukaliðið. Að sama skapi áttu þeir í erfiðleikum með að komast í gegnum okkur. Það var gott að ná að skora úr föstu leikatriði, við erum aðeins búnir að vera að vinna í því, og það sýnir styrk og gæði og gott líkamlegt atgervi að ná að klára leikinn á síðustu mínútunni. Mér fannst það sanngjarnt,“ sagði Gunnar ennfremur.

Bæði lið skelltu í lás í leiknum og það var lítið að frétta lengst af. Eftir markalausan fyrri hálfleik mættu Haukar hressir í seinni hálfleikinn með Elton Barros, fyrrum framherja Selfoss í fremstu víglínu.

Selfyssingar fengu þó ágæt færi líka í upphafi seinni hálfleiks og Pachu og Andy Pew áttu báðir skalla framhjá úr góðri stöðu með stuttu millibili.

Þegar leið að leikslokum voru Selfyssingar líklegri og þeim tókst að stela stigunum þremur með marki á lokamínútu leiksins. Eftir langt innkast var mikið klafs í vítateig Hauka þar sem Andy Pew fékk tvær tilraunir til að koma knettinum í netið – og tókst það í þeirri síðari.

Sigurinn lyfti Selfyssingum upp í miðja deild, en Haukar sitja eftir í neðri hlutanum. Selfoss hefur 14 stig í 6. sæti en Haukar eru með 11 stig í 8. sætinu.

Fyrri greinUm 100 manns við leit
Næsta greinEnn bætist í leitarhópinn