Frábær útisigur hjá Hamri

Velgengni Hamars í Iceland Express-deild karla heldur áfram en liðið lagði Njarðvík í kvöld á útivelli, 76-90.

Leikurinn var í jafnvægi fram í 2. leikhluta þegar kom að skelfilegum kafla Hvergerðinga. Njarðvík skoraði 22 stig gegn 9 stigum Hamars í 2. leikhluta og staðan í hálfleik var 43-32.

Ágúst Björgvinsson þjálfari Hamars blés mönnum rétta andann í brjóst í leikhléinu og Hamar var mun betri aðilinn í síðari hálfleik. Liðsheildin var góð hjá Hamri í 3. leikhluta og í upphafi síðasta fjórðungsins hafði Hamar tíu stiga forskot, 57-67. Skotgleði Hamars hélt áfram í 4. leikhluta og sjö síðustu stig liðsins komu af vítalínunni þar sem Ellert Arnarson var öryggið uppmálað.

Nerijus Taraškus sýndi loksins lit og var stigahæstur í liði Hamars með 20 stig og 8 fráköst. Darri Hilmarsson átti góðan seinni hálfleik, skoraði 19 stig og tók 8 fráköst. Ellert Arnarson skoraði 18 stig og átti stoðsendingar, Andre Dabney skoraði 17 stig og tók 7 fráköst og Svavar Páll Pálsson skoraði 12 stig og tók 8 fráköst. Ragnar Á. Nathanaelsson og Snorri Þorvaldsson komust einnig á blað með tvö stig hvor.

Fyrri greinHefur þú fundið hasslykt?
Næsta greinLaugdælir byrjuðu illa