Frábær útisigur Þórsara

Þór Þorlákshöfn vann öruggan sigur á Stjörnunni á útivelli í kvöld þegar liðin mættust í Domino’s-deild karla í körfubolta, 76-86.

Fyrri hálfleikur var jafn en staðan að honum loknum var 40-42 efitr að Marvin Valdimarsson hafði lokað leikhlutanum með þriggja stiga flautukörfu fyrir Stjörnuna.

Jafnræðið hélt áfram í þriðja leikhluta en í þeim fjórða létu Þórsarar til skarar skríða. Staðan var 57-57 þegar síðasti fjórðungurinn hófst en Þórsarar gerðu 22-5 áhlaup á fimm og hálfri mínútu og breyttu stöðunni í 62-77.

Munurinn varð mestur sautján stig í fjórða leikhluta en Stjarnan náði að minnka muninn í tíu stig á lokamínútunni.

Emil Karel Einarsson var besti maður Þórsara í leiknum, skoraði 22 stig og var með 32 í framlagseinkunn. Vance Hall átti einnig mjög góðan leik, skoraði 27 stig.

Eftir leiki kvöldsins er Þór í 3. sæti deildarinnar með 8 stig.

Tölfræði Þórs: Vance Hall 27 stig/5 fráköst/7 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 22 stig/4 fráköst/6 stoðsendingar, Þorsteinn Már Ragnarsson 16 stig/6 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 7 stig, Ragnar Örn Bragason 5 stig, Halldór Garðar Hermannsson 5 stig/4 fráköst, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 4 stig/5 fráköst/4 varin skot.

Fyrri grein„Þetta var mikið svekkelsi“
Næsta greinSlökkviliðsmenn hafa þungar áhyggjur