Frábær sigur Selfyssinga

Kvennalið Selfoss vann frækinn sigur á FH í kvöld í Olís-deild kvenna í handbolta. Lokatölur voru 26-21 en staðan í hálfleik var 13-7.

Það blés reyndar ekki byrlega í upphafi leiks fyrir Selfoss því að gestirnir mættu mjög ákveðnir til leiks og skoruðu þrjú fyrstu mörk leiksins. Þá hrukku Selfyssingar svo sannarlega í gang, skoruðu fimm mörk í röð og litu ekki til baka það sem eftir lifði leiks. Staðan í hálfleik eins og áður segir 13-7.

Í upphafi síðari hálfleiks var það sama upp á teningnum. Selfyssingar léku sterka vörn og sóknarleikurinn var á köflum með því besta sem sést hefur í Vallaskóla. Þegar tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum var forysta Selfyssinga komin í átta mörk, 20-12. Eftir það slökuðu Selfyssingar á og þrátt fyrir örvæntingafullar tilraunir FH-inga til að brjóta niður sóknarleik Selfyssinga héldu stelpurnar út allan tímann og unnu að lokum öruggan fimm marka sigur 26-21.

Það var greinilegt að endurkoma Þuríðar Guðjónsdóttur og Hrafnhildar Hönnu Þrastardóttur í liðið styrkti það gríðarlega. Hanna átti stórleik í kvöld en hún var markahæst með 9 mörk auk þess að gefa 4 stoðsendingar og verja 3 skot FH-inga í vörninni. Þuríður var næstmarkahæst með 5 mörk og átti einnig 4 stoðsendingar í leiknum. Carmen Palamariu og Hildur Öder Einarsdóttir skoruðu 4 mörk hvor, Kara Rún Árnadóttir 2 mörk og þær Thelma Sif Kristjánsdóttir og Helga Rún Einarsdóttir skoruðu hvor sitt markið. Þá verður að geta þess að þrátt fyrir að komast ekki á blað í kvöld átti Hulda Dís Þrastardóttir góðan leik í sökn og vörn Selfoss og átti meðal annars 4 stoðsendingar.

Áslaug Ýr Bragadóttir stóð í markinu allan leikinn og varði 15 skot þar af eitt víti.

Þrátt fyrir sigurinn eru Selfyssingar ennþá í 11. sæti Olísdeildarinnar en nú með 9 stig og narta í hælana á liðunum 8.-10. sæti. Næsti leikur stelpnanna er á útivelli gegn Fram laugardaginn 22. febrúar nk. og hefst hann klukkan 13:30.

Umfjöllun um leikinn á umfs.is

Fyrri greinFjöldi viðurkenninga og nýr formaður
Næsta greinVarað við hvassviðri í dag