Frábær sigur Hamarsmanna

Hamar vann í kvöld frábæran sigur á KR í Iceland Express deild karla í körfubolta. Eftir dramatískar lokamínútur lauk leiknum með 87-82 sigri Hvergerðinga.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Hamar leiddi með fimm stigum í leikhléi, 46-41.

KR-ingar tóku við sér í upphafi 3. leikhluta og liðin skiptust á um að halda forystunni.

Síðasti fjórðungurinn var æsispennandi en KR-ingar virtust ætla að taka leikinn í sínar hendur. Þeir skiptu yfir í svæðisvörn sem Hamar átti erfitt með að finna glufur á og þegar rúmar sex mínútur voru eftir leiddi KR, 76-82.

Hamar skoraði hins vegar ellefu síðustu stigin í leiknum og munaði þar mestu um hrikalega þriggja stiga körfu frá Ellert Arnarsyni þegar 40 sekúndur voru eftir af leiknum. Hann kom Hamri þá í 85-82 og fór langt með að tryggja Hamri sigurinn. Kjartan Kárason og Andre Dabney kláruðu leikinn fyrir Hamar á vítalínunni en Dabney var stigahæstur hjá Hamri með 22 stig.

Svavar Páll Pálsson þarf ekki að skammast sín en hann var frábær í leiknum með 17 stig og tók 14 fráköst. Ellert Arnarson og Darri Hilmarsson skoruðu 16 og 15 stig gegn sínum gömlu félögum, Kjartan Kárason skoraði 7 stig og Ragnar Nathanaelsson 6 auk þess að taka 10 fráköst.

Fyrri greinRisaleikur hjá Field
Næsta grein„Þetta var fáránlega skrítið“