Frábær fyrri hálfleikur dugði ekki til

Selfoss er úr leik í Símabikar kvenna í handbolta eftir 23-32 tap gegn bikarmeisturum Vals á Selfossi í kvöld. Selfosskonur voru frábærar í fyrri hálfleik og leiddu í leikhléinu, 14-13.

Selfoss skoraði tvö fyrstu mörkin en Valur svaraði með þremur mörkum í röð. Selfyssingar létu það ekki slá sig út af laginu, spiluðu frábæra vörn og í sókinni var Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir óstöðvandi. Selfoss komst tveimur mörkum yfir aftur og fengu nokkur tækifæri til þess að auka forskotið enn frekar á meðan Valskonur voru virkilega slegnar út af laginu.

Þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik náði Selfoss fjögurra marka forskoti, 11-7 og 12-8, en Valur minnkaði muninn fljótlega í 12-11 en staðan var 14-13 í hálfleik.

Selfossliðið náði ekki að fylgja eftir góðum fyrri hálfleik eftir leikhlé. Valur komst yfir á upphafsmínútum seinni hálfleiks, 14-16, en Selfoss náði að jafna 18-18. Nær komust þær vínrauðu ekki því Valur svaraði með sjö mörkum í röð og gerði þar með út um leikinn.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 8 mörk, Kristrún Steinþórsdóttir skoraði 4, Þuríður Guðjónsdóttir 3, Thelma Sif Kristjánsdóttir, Tinna Soffía Traustadóttir og Carmen Palamariu skoruðu allar 2 mörk og þær Hildur Øder Einarsdóttir og Helga Rún Einarsdóttir skoruðu sitt markið hvor.

Áslaug Ýr Bragadóttir varði 7 skot í markinu og Ásdís Ingvarsdóttir varði 2.

Fyrri greinEldhestar er bær mánaðarins í febrúar
Næsta greinHeilsuhelgi í Þykkvabænum