Frábær árangur Lilju í Skotlandi

Lilja Björg Jónsdóttir frá Götu í Hrunamannahreppi náði frábærum árangri í keppninni Sterkasta kona Bretlands sem haldin var í Stevenston í Skotlandi á dögunum.

Mótið var alþjóðlegt og varð Lilja í 3. sæti í sterkum keppendahópi í -75 kg flokki með 20,5 stig en í 2. sæti varð sterkasta kona heims í þessum þyngdarflokki, Taisa Gedzu frá Úkraínu, með 23,5 stig. Sigurvegarinn var heimakonan Louise Blades með 29,5 stig.

Sex keppendur kepptu í -75 kg flokki en átta í +75 kg flokki og keppt var í fimm greinum, meðal annars drumbalyftu, sleðadrætti og bjórkútahleðslu.

Í samtali við sunnlenska.is sagðist hún mjög ánægð með árangurinn í Skotlandi en næstu mót sem Lilja stefnir á eru Sterkasta kona heims sem fram fer í Skotlandi í október og Sterkasta kona Íslands sem fram fer í nóvember, en fleiri mót gætu bæst við í millitíðinni.

Lilja býr á Hornafirði og æfir þar í Sporthöllinni ásamt manni sínum, Guðna Þór Valþórssyni.

Fyrri greinUngir bíókóngar á Selfossi
Næsta greinMunir úr Tryggvaskála óskast