Frábær árangur hjá Þóru í Skotlandi

Stokkseyringurinn Þóra Þorsteinsdóttir, önnur sterkasta kona Íslands, varð í öðru sæti á sterku aflraunamóti í Skotlandi á dögunum.

Mótið heitir Scotlands most powerful woman, eða Sterkasta kona Skotlands. Þóra náði öðru sætinu í æsispennandi keppni milli sjö kvenna í +75 kg flokki. Aðeins munaði einu stigi á Þóru og sigurvegaranum, Anett Von Der Weppen frá Þýskalandi.

„Þetta var mjög erfið og löng keppni, en keppt var í svokölluðu „last woman standing“. Þá er haldið áfram og bætt við þyngdum þar til ein kona stendur uppi með mestu þyngdina,“ sagði Þóra í samtali við sunnlenska.is.

Keppt var í fimm greinum; bændagöngu, uxagöngu, að ýta sleða, réttstöðulyftu og axlapressu.

„Þar sem ég hef ekki mikla reynslu af aflraunakeppnum byrjaði ég mjög öruggt í öllum greinum, og vann mig svo hægt upp, þannig að keppnin var mjög erfið,“ segir Þóra.

Hún á von á því að keppa á fleiri mótum erlendis í sumar, bæði í Þýskalandi og Skotlandi. Þá verður hún meðal þátttakenda á stórum hálandaleikum sem haldnir verða á Selfossi þann 9. júní nk., en Þóra æfir hálandaköst.

Þóra starfar sem geislafræðingur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands en hún býr á Stokkseyri ásamt eiginmanni sínum, Böðvari Þór Kárasyni, og fjórum börnum þeirra. Hún er í raun nýbyrjuð að æfa og keppa í aflraunum.

„Ég byrjaði ekki að æfa af neinu viti fyrr en sumarið 2010, þá orðin 31 árs. Ég hef nánast eingöngu æft júdó í vetur en sex vikum fyrir mótið bætti ég lyftingum við og dró úr júdóæfingunum. Ég borða bara venjulegan mat, ekki duft máltíðir, og tek inn vítamín og lýsi,“ segir Þóra og bætir við að júdóið hafi verið að gera góða hluti fyrir sig.

„Júdóið hefur bætt þol og styrk hjá mér, og ég hvet alla til að reyna það, það er mjög skemmtilegt,“ sagði Þóra að lokum.

Fyrri greinSelfyssingum spáð falli
Næsta greinGuðbjörg áfram formaður BSSL