Frábært stig hjá Selfyssingum

Kvennalið Selfoss hoppaði upp um tvö sæti og úr fallsæti þegar liðið gerði 3-3 jafntefli við Breiðablik í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Katrín Ýr Friðgeirsdóttir kom Selfyssingum yfir á 10. mínútu með góðu skoti úr teignum en eftir markið tóku Blikar við sér og skoruðu tvívegis með stuttu millibili. Selfyssingar voru hins vegar ákveðnari síðustu fimmtán mínútur fyrri hálfleiks og á 40. mínútu skoraði Valorie O’Brien glæsilegt skallamark eftir aukaspyrnu Katrínar Ýrar. Staðan var 2-2 í hálfleik.

Sama baráttan var uppi á teningnum í síðari hálfleik og leikurinn einkenndist af stöðubaráttu á miðjunni. Blikar komust í 2-3 á 75. mínútu en Selfyssingar voru ekki af baki dottnir og á 81. mínútu fékk Guðmunda Brynja Óladóttir stungusendingu innfyrir vörnina, lék á markmann Blika og skoraði í autt markið.

Á lokamínútunum hefðu Selfyssingar svo getað náð í öll þrjú stigin en þær hljóta að vera fullsáttar við þetta dýrmæta stig sem þær unnu í kvöld.