„Frábært að halda hreinu“

Í Inkasso-deildinni gerðu Selfoss og Keflavík 0-0 jafntefli í eina knattspyrnuleiknum á Íslandi í kvöld. Liðin mættust á JÁVERK-vellinum í bongóblíðu.

„Þetta var jafn leikur, en ég held, af því að við vörðum vítaspyrnu, að þetta hafi verið mjög sanngjörn úrslit,“ sagði Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Við vörðumst mjög vel á móti liði sem fór mjög illa með okkur í fyrri umferðinni. Keflvíkingar eru svakalega flottir og vel mannaðir, en við leystum þetta vel og það var frábært að halda hreinu og spila góðan varnarleik. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá sagði ég það fyrir leik að ég vildi fá þrjú stig, en ég yrði sennilega ánægður með eitt stig. Eftir leikinn er ég hins vegar aðeins svekktur, því mér fannst vera „moment“ með okkur bæði í fyrri og seinni hálfleik,“ sagði Gunnar ennfremur.

Stefna Selfyssinga er að leggja rækt við heimamenn og einn slíkur kom inná í sínum fyrsta meistaraflokksleik í dag, Kristinn Sölvi Sigurgeirsson, 18 ára gamall leikmaður 2. flokks Selfoss.

„Það var frábært að Kristinn fái sinn fyrsta leik hérna í kvöld og hann kom sterkur inn. Ég var mjög ánægður með innkomuna hjá honum, hann kom inn af krafti og var duglegur. Ég er alls ekkert feiminn við að henda þessum strákum út í djúpu laugina. Svona búum við til karla,“ sagði Gunnar að lokum.

Selfyssingar voru sterkari í fyrri hálfleik og fengu nokkur hálffæri. Ingi Rafn Ingibergsson átti líklega besta færi Selfyssinga þegar hann slapp innfyrir á 35. mínútu en hitti boltann illa og skaut yfir. Fimm mínútum síðar skoraði Pachu með skalla af stuttu færi, en var rangstæður að mati línuvarðarins. Mjög tæpt.

Eina færi Keflvíkinga í fyrri hálfleik var úr vítaspyrnu á 23. mínútu. Sigurður Eyberg fékk þá boltann í höndina og víti réttilega dæmt. Vignir Jóhannesson varði spyrnu Sigurbergs Eiríkssonar hins vegar af miklu öryggi.

Staðan var 0-0 í hálfleik og síðari hálfleikur var tíðindalítill lengst af. Keflvíkingar voru meira með boltann en hvorugu liðinu tókst að skapa sér afgerandi færi. Lokakaflinn var þó nokkuð líflegur en það var sama sagan – inn vildi boltinn ekki.

Selfoss er áfram í 6. sæti deildarinnar, nú með 17 stig, en Keflavík er í 4. sætinu með 22 stig.