Frábær sigur ungmennaliðsins

Ungmennalið Selfoss vann frábæran sigur á ÍR í 1. deild karla í handbolta í kvöld, 33-31. ÍR er í 2. sæti deildarinnar en Selfoss í því 6.

Liðin mættust á Selfossi og það voru heimamenn sem tóku leikinn strax í hendur sér. Selfoss komst í 5-1 og var yfir allan fyrri hálfleik þó að ÍR næði að minnka muninn í 7-6. Staðan var 15-12 í hálfleik.

Það tók ÍR aðeins þrjár mínútur að jafna í seinni hálfleik 17-17 og þeir komust í kjölfarið yfir í eina skiptið í leiknum, 18-19. Það var besti kafli ÍR í leiknum en annars voru þeir ósannfærandi miðað við að þarna var á ferðinni liðið í 2. sæti deildarinnar.

Selfoss komst strax yfir aftur og virtist hafa góð tök á leiknum fram á lokamínúturnar. Undir lokin kom þó fát á Selfoss í sóknarleiknum og ÍR jafnaði 31-31. Þannig var staðan þegar hálf mínúta var eftir af leiknum en Óskar Kúld komst þá inn í sendingu ÍR-liðsins og skoraði 32. mark Selfoss. ÍR brunaði fram en Helgi Héðinsson varði frábærlega í marki Selfoss og tryggði þar með sigurinn. ÍR reyndi að pressa á lokasekúndunum en Trausti Eiríksson slapp innfyrir vörn þeirra og gulltryggði Selfosssigur.

Rúnar Hjálmarsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk og átti frábæran leik. Rúnar hefur ekki æft síðan í nóvember sökum anna en var kallaður út vegna meiðsla í hópnum. Andri Már Sveinsson og Matthías Halldórsson skoruðu 7 mörk, Atli Hjörvar Einarsson 3, Óskar Kúld Pétursson, Ketill Hauksson og Sigurður Guðmundsson skoruðu allir 2 mörk og þeir Trausti Eiríksson og Gunnar Ingi Jónsson skoruðu báðir 1 mark.

Helgi átti mjög góðan leik í marki Selfoss og varði 17/1 skot.