Frábær sigur Laugdæla

Laugdælir unnu sinn fyrsta leik í 1. deild karla í körfubolta í kvöld þegar þeir tóku á móti Skallagrím á Laugarvatni. Lokatölur 88-81.

Gestirnir byrjuðu betur og leiddu eftir fyrsta leikhluta, 18-24. Laugdælir komu til baka í öðrum leikhluta og náðu að minnka muninn í eitt stig fyrir leikhlé, 39-40.

Laugdælir lögðu síðan grunninn að sigrinum með frábærum kafla undir lok þriðja leikhluta þar sem þeir skoruðu 20 stig gegn 6 stigum gestanna og breyttu stöðunni í 64-51.

Lokafjórðungurinn var æsispennandi en Skallagrímur náði að jafna, 80-80, þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. Heimamenn kláruðu leikinn hins vegar á vítalínunni þar sem Sigurður Orri Hafþórsson og Pétur Már Sigurðsson höfðu stáltaugar og kláruðu leikinn.

Sigurður Orri og Pétur Már skoruðu báðir 24 stig og Bjarni Bjarnason skoraði 10.

Í liði Borgnesinga voru Darrell Flake og Nikola Kuga stigahæstir með 30 og 14 stig.