Frábær sigur Þórsara – FSu tapaði heima

Þór Þorlákshöfn vann sætan útisigur á Tindastól í Domino’s-deild karla í körfubolta í kvöld, en á sama tíma tapaði FSu heima fyrir Stjörnunni.

Þór sótti Tindastól heim á Sauðárkrók. Gestirnir höfðu frumkvæðið framan af leiknum og leiddu í leikhléi, 38-32. Þórsarar mættu öflugir inn í seinni hálfleikinn og náðu forystunni fyrir síðasta fjórðunginn, 54-55. Lokamínúturnar voru æsispennandi en úrslitin réðust ekki fyrr en á lokasekúndunum. Þór sigraði 78-80 en Tindastóll átti síðasta skot leiksins, sem geigaði.

Vance Hall var stigahæstur hjá Þór með 34 stig og átti frábæran leik og Emil Karel Einarsson skoraði 18.

FSu tók á móti Stjörnunni í Iðu í hörkuleik. FSu liðið var reyndar alls ekki með á nótunum á upphafsmínútunum og Stjarnan komst í 10-27. Þá vöknuðu heimamenn og minnkuðu muninn í 35-46 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Í seinni hálfleik náði FSu að minnka muninn í tvö stig en Stjarnan stóð af sér öll áhlaup heimamanna þegar leið á leikinn. Á lokamínútunum jókst munurinn aftur og lokatölur urðu 81-94.

Chris Woods skoraði 30 stig fyrir FSu og tók 17 fráköst, Hlynur Hreinsson skoraði 19 stig og Chris Caird 10.

Að loknum fjórtán umferðum er Þór í 4. sæti deildarinnar með 16 stig en FSu í 11. sæti með 6 stig.

Fyrri greinMinnihlutinn klofinn í Mýrdalshreppi
Næsta greinMargar fjölskyldur njóta góðs af vinningnum