Frábær Selfosssigur í hörkuleik

Selfoss knúði fram sigur í hörkuleik gegn HK í Olísdeild-kvenna í handbolta þegar liðin mættust í Vallaskóla í dag. Lokatölur voru 23-22.

Selfoss komst í 2-0 eftir tíu mínútur en liðið spilaði góða vörn stærstan hluta leiksins og markverðir liðsins voru í stuði. HK vann sig inn í leikinn í fyrri hálfleik og náði þriggja marka forystu seint í fyrri hálfleik en Selfoss minnkaði muninn í eitt mark fyrir leikhlé, 10-11.

Gestirnir náðu aftur þrigga marka forskoti í upphafi síðari hálfleiks en Selfyssingar gáfust ekki upp, frekar en fyrri daginn, og náðu með mikilli seiglu að koma sér inn í leikinn aftur. Jafnt var á öllum tölum síðustu tíu mínútur leiksins og að lokum náðu Selfyssingar að knýja fram sigur, vel studdir af áhorfendum í stúkunni.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir fór á kostum í liði Selfoss og skoraði 10 mörk. Kristrún Steinþórsdóttir skoraði 7, Kara Rún Árnadóttir 3, Þuríður Guðjónsdóttir 2 og Carmen Palamariu 1.

Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 12/1 skot í marki Selfoss og var með 41% markvörslu og Áslaug Ýr Bragadóttir varði 6 skot og var með 54% markvörslu.

Fyrri greinSegja nauðsynlegt að ríkið vinni með landeigendafélaginu
Næsta greinUniJon í Draugasetrinu