Frábær frammistaða á Akureyri

Karlalið Selfoss vann sannfærandi sigur á Þór Akureyri á útivelli í Inkasso-deildinni í knattspyrnu í dag. Lokatölur urðu 1-4.

Selfoss komst yfir nánast í fyrstu sókn. Eftir hornspyrnu á 2. mínútu skoraði Sindri Pálmason eftir klafs í vítateig Þórsara. Á 38. mínútu bætti svo JC Mack við öðru marki fyrir Selfoss þegar hann fékk boltann innfyrir eftir sendingu frá Þorsteini Daníel Þorsteinssyni. Þórsarar minnkuðu muninn með skallamarki Jóhanns Hannessonar eftir aukaspyrnu á 42. mínútu og staðan var 1-2 í hálfleik.

Selfyssingar voru mun frískari í seinni hálfleiknum og höfðu góð tök á leiknum. Varnarleikur liðsins var til fyrirmyndar með Andy Pew í miðri vörninni. Andy gerði sér svo lítið fyrir og skoraði þriðja mark Selfoss með glæsilegum skalla eftir hornspyrnu á 55. mínútu, 1-3. Á lokamínútu leiksins innsiglaði svo Haukur Ingi Gunnarsson 1-4 sigur Selfoss þegar hann lék á varnarmann og skoraði með góðu skoti.

Í uppbótartíma fékk Andy Pew svo rautt spjald eftir að hafa varið boltann á línunni. Þórsarar fengu víti en skutu í stöng og reyndist það síðasta spyrna leiksins.

Selfoss hefur unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni og hefur sex stig á toppnum eins og Fylkir. Næsti deildarleikur liðsins er gegn Gróttu á heimavelli næstkomandi laugardag, en í millitíðinni spilar Selfoss bikarleik gegn Kára á þriðjudagskvöld.

Fyrri greinFyrsta skóflustungan að nýrri aðstöðu Lýsis
Næsta greinLokun á Biskupstungnabraut