Frábær ferð til Aþenu

Sigríður Erna Kristinsdóttir og Reynir Ingólfsson, úr Íþróttafélaginu Suðra, eru komin heim eftir ótrúlegt ævintýri á Special Olympic í Aþenu.

Þar voru þau ásamt 36 keppendum og 15 þjálfurum og fararstjórum.

Ferðalagið var mjög langt samtals 27 tímar, þegar komið var til Grikklands tók við 9 tíma ferðalag í rútu til vinabæjar Íslands sem var Halkidiki þar sem þau voru í fjóra daga í góðu yfirlæti. Síðan tók alvaran við og keppendur komu til Aþenu og skiptust á þrjá staði.

Sigríður keppti í langstökki og var í þriðja sæti og 100 m hlaupi og var í fjórða sæti af sjö keppendum. Reynir keppti í fótbolta og náði íslenska liðið silfri í B riðli sem er frábær árangur.

“Það var ótrúlegt hve unga og óreynda íþróttafólkið í hópnum stóð sig vel og var jákvætt og duglegt í sinni fyrstu ferð erlendis með ókunnu fólki. Við foreldrar Sigríðar og Reynis þökkum sérstaklega þjálfurum og liðsmönnum sem af mikilli yfirvegun og ótrúlegri vinnu skiluðu þeim heim lífsreyndari og með sterkari sjálfsmynd. Sérstakar þakkir til þjálfara í frjálsum, Ástu Katrínar Helgadóttur og Þórarins Hannessonar og í knattspyrnu, Darra McMahon og Dags Dagbjartssonar, sem voru með okkar fólk,” segir Bryndís Sumarliðadóttir, móðir Sigríðar Ernu.

Hopmynd_Spec__Ol2011_864694407.jpg