Frábær endurkoma Ægis – Stokkseyri tapaði

Ægismenn unnu heldur betur mikilvægan sigur á Sindra frá Hornafirði í 2. deild karla í knattspyrnu í gær, á sama tíma og Stokkseyri tapaði fyrir Mána frá Hornafirði.

Leikur Ægis og Sindra var sannkallaður sex stiga leikur í fallbaráttu 2. deildarinnar. Útlitið var ekki gæfulegt fyrir Ægi í upphafi leiks því eftir tæpan hálftíma voru gestirnir komir í 0-3.

William Daniels náði að minnka muninn á 37. mínútu og staðan var 1-3 í hálfleik.

Ægismenn komu mun betur stemmdir inn í seinni hálfleikinn og náðu að jafna metin á fyrstu tíu mínútunum. Moncho skoraði á 53. mínútu og tveimur mínútum síðar jafnaði Daniels með sínu öðru marki.

Milan Djurovic náði svo að knýja fram sigurmarkið mikilvæga á 80. mínútu og lokatölur leiksins urðu 4-3.

Þrátt fyrir sigurinn er Ægir enn í fallsæti með 14 stig, en bilið upp í KF, Sindra og Njarðvík er nú aðeins eitt stig. Ægir mætir einmitt KF í næstu umferð á útivelli í öðrum sex stiga leik.

Dauft hjá Stokkseyringum
Stokkseyri tók á móti Mána þar sem gestirnir höfðu undirtökin lengst af. Þeir komust yfir á 40. mínútu og mínútu síðar var Hafsteini Jónssyni vikið af velli með rautt spjald á bakinu. Manni færri náðu Stokkseyringar þó að jafna á lokamínútu fyrri hálfleiks. Þar var að verki Eyþór Gunnarsson og staðan var 1-1 í hálfleik.

Máni bætti við tveimur mörkum á lokakafla leiksins og sigraði að lokum 1-3. Þar með náðu þeir Stokkseyringum að stigum en bæði lið hafa 9 stig í 5.-6. sæti A-riðils.

Fyrri greinKristín og Þokki heimsmeistarar í tölti
Næsta greinÞriggja ára stúdentsferli hafið