Frábær árangur Selfyssinga

Ungmennafélag Selfoss eignaðist sinn fyrsta Íslandsmeistara í kraftlyftingum á Íslandsmeistaramótinu í réttstöðulyftu sem haldið var í Iðu á laugardag. Stefán Blackburn átti frábært mót og lyfti 290 kg.

Fyrir lyftuna fékk Stefán 175,1 stig. Stefán vann einnig sinn þyngdarflokk (-105kg) en frændi hans, Árni Steinarsson, varð annar og lyfti einnig 290 kg. Þar sem Árni er 2,6 kg þyngri en Stefán fékk hann færri stig eða 173,5 stig fyrir að lyfta sama lyfta kílóafjölda.

Þriðja besta Selfoss lyftan, stigalega séð, kom frá Jóhönnu Eivinsdóttur Christiansen. Hún lyfti 167,5 kg og fékk fyrir það 150,5 stig. Jóhanna keppti í -83kg flokki og vann þann flokk.

Rósa Birgisdóttir lyfti mestu allra kvenna á mótinu eða 188,0 kg og bætti Íslandsmetið í +83 kg þyngdarflokki. Fyrir lyftuna fékk hún 147,6 stig.

Ástmundur Sigmarsson mætti á mótið óæfður en í miklum lyftingarham og reif upp 217,5 kg og fékk fyrir það 137 stig og bronsverðlaun í -93 kg þyngdarflokknum.

Daníel Geir Einarsson fékk 128,4 stig fyrir 220 kg lyftu og lenti í 4. sæti í -120 kg þyngdarflokki.

Katrín Jóna Kristinsdóttir fékk silfurverðlaun í -83 kg flokki. Hún lyfti 122,5 kg og fékk 111 stig fyrir þann árangur.

Tara Rögn Vilhelmsdóttir varð önnur í +83 kg flokki, lyfti 125 kílóum og fékk 106 stig fyrir og Anna Heiður Heiðarsdóttir varð fjórða í sama flokki, lyfti 112,5 kg og fékk 92,7 stig fyrir.

Þessar þrjár síðastnefndu voru að keppa í fyrsta sinn og náðu allar að uppfylla væntingar þjálfarans Benedikts Magnússonar sem hefur verið að kenna þeim og þjálfa í stuttan tíma.

Umf. Selfoss varð í öðru sæti í liðakeppninni, aðeins tveimur stigum á eftir Breiðabliki.

“Mótið gekk mjög vel fyrir sig og okkur til mikillar gleði voru áhorfendapallarnir í Iðu fullir af fólki sem kom til að horfa á og fylgjast með átökunum,” sagði Bryndís Ólafsdóttir, formaður kraftlyftinganefndar Umf. Selfoss í samtali við sunnlenska.is. Bryndís vildi koma á framfæri sérstökum þökkum til veisluþjónustunnar Matur og Músík sem framreiddi gómsæta gúllassúpu sem félagið seldi.