Frábær þrenna hjá Helga – Maciej á sjúkrahús

Knattspyrnufélag Rangæinga og Knattspyrnufélag Fjallabyggðar gerðu 3-3 jafntefli í dramatískum leik í 2. deild karla í dag þegar þau mættust á Hvolsvelli.

Rangæingar litu vel út á fyrstu tuttugu mínútum leiksins en þegar leið á fyrri hálfleikinn náðu gestirnir góðum tökum á leiknum og skoruðu tvívegis. Staðan var 0-2 í hálfleik.

KFR varð fyrir áfalli undir lok fyrri hálfleiks þegar markvörðurinn Maciej Majewski meiddist í úthlaupi. Maciej fékk þungt höfuðhögg þegar hann lenti í samstuði við sóknarmann KF og fékk flogakast í kjölfarið. Sjúkrateymi KF sýndi skjót viðbrögð ásamt hjúkrunarkonu sem stödd var á leiknum og sinntu þau Maciej þangað til sjúkrabíll kom á staðinn. Hann var fluttur með hraði á slysadeild í Reykjavík en mun vera á batavegi.

Rangæingar komu mun ákveðnari til seinni hálfleiks og náðu að snúa leiknum sér í vil með þremur góðum mörkum frá Helga Ármannssyni. Í stöðunni 3-2 virtist KFR vera með leikinn í hendi sér en gestirnir náðu að jafna metin rétt undir lok leiksins en töluverð rangstöðulykt var af markinu.

Niðurstaðan varð því 3-3 jafntefli og Rangæingar gengu virkilega svekktir af velli eftir góða spilamennsku í síðari hálfleik.

KFR er nú með sex stig í botnsæti deildarinnar. Liðið mætir Hamri á útivelli í næstu umferð og tapi Rangæingar leiknum eru þeir fallnir úr 2. deildinni.