Frábær þátttaka í Tour de Hvolsvöllur

Tour de Hvolsvöllur hjólreiðakeppnin fór fram um síðustu helgi í frábæru hjólaveðri, þrátt fyrir smá skúr á keppendur frá Reykjavík.

Þetta er eina keppnin, utan WOW hjólreiðakeppninnar, sem fór fram nú í sumar, þar sem hjóluð er svo löng vegalengd á Þjóðvegi 1.

Um 160 þátttakendur skráðu sig til leiks þar sem boðið var upp á þrjár mislangar vegalengdir. Frá Reykjavík til Hvolsvallar 110 km, frá Selfossi til Hvolsvallar 48 km og einn léttari sprettur frá Hellu til Hvolsvallar 14 km.

Ræst var frá Reykjavík kl. 7 á laugardagsmorgun, þar sem 96 keppendur lögðu upp og hjóluðu sem leið liggur austur fyrir fjall til Hvolsvallar. Einum og hálfum tíma síðar var ræst frá Selfossi en þar voru 32 keppendur sem hófu keppni. Fyrstu keppendur frá Reykjavík komu í mark á tímanum 2:38,46, en þeir síðustu á 5 tímum.

Sigurvegarar í karlaflokki á Reykjavíkurleið TdH voru í 1. sæti Hafsteinn Ægir Geirsson á tímanum 2:38,46, 2. sæti Miroslaw Adam Zyrek á tímanum 2:38,47 og Ingvar Ómarsson og Helgi Berg Friðþjófsson sjónarmun á eftir á sama tíma. Kasta þurfti uppá þriðja sætinu en það kom í hlut Ingvars.

Sigurvegarar í kvennaflokki á Reykjavíkurleið TdH voru í 1. sæti María Ögn Guðmundsdóttir á tímanum 2:53,00, 2. sæti Ása Guðný Ásgeirsdóttir á tímanum 2:57,16 og 3. sæti á sama tíma en sjónarmun á eftir Ásu var Ásdís Kristjánsdóttir.

Sigurvegarar í karlaflokki á Selfossleið TdH voru 1. sæti Vilberg Eríksson, 1:22,14, 2. sæti Árni Davíðsson 1:22,16 og 3. sæti Elvar Smári Clausen Einarsson á tímanum 1:24,05. Í kvennaflokki á Selfossleið TdH voru Alma María Rögnvaldsdóttir í 1. sæti á 1:13,28, 2. sæti Jórunn Jónsdóttir á 1:13,28 og 3. sæti Ólöf Pétursdóttir á 1:18,09.

Myndir og alla tímana úr áskoruninni má finna inn á vef Rangárþings eystra.

Tíu lið voru skráð til keppni þar sem Jötunvélar á Selfossi gáfu bikar til eignar fyrir bestan samanlagðan tíma þriggja efstu þátttakanda í hverju liði. Þar var Ísbjörninn Dollý með besta tímann 7:56,33. Næst á eftir kom Team TRI og í þriðja sæti lið HFR.

“Það er sveitarfélagið Rangárþing eystra sem stendur fyrir þessari áskorun í samstarfi TRI, Vífilfell, SS og fleiri aðila sem leggja áskoruninni lið þannig að vel megi til takast. Fjöldi sjálfboðaliða kom meðal annars að undirbúningi og framkvæmd áskorunarinnar. Viljum við koma þakklæti til allra þeirra sem komu að áskoruninni með einum eða öðrum hætti og þátttakendum fyrir þátttökuna og frábæran dag,” sagði Benedikt Benediktsson íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Rangárþings eystra í samtali við sunnlenska.is.