Föstu leikatriðin klikka enn og aftur

Selfoss tapaði þriðja leiknum í röð í Pepsi-deild karla í knattspyrnu þegar liðið tók á móti Fylki á Selfossvelli í kvöld. Lokatölur voru 1-2 eftir fjörugar lokamínútur.

Logi Ólafsson stillti upp óbreyttu byrjunarliði frá tapleiknum gegn KR í síðustu umferð.

Selfyssingar áttu að fá víti strax á 4. mínútu leiksins þegar brotið var á Viðari Kjartanssyni sem var sloppinn framhjá markverði Fylkis. Dómari leiksins var ekki á sama máli og spjaldaði Viðar fyrir leikaraskap.

Annars var fyrri hálfleikur steindauður en bæði lið fóru mjög varlega í sóknarleiknum, lágu til baka og sköpuðu sér lítið annað en hálffæri úr tilraunum til skyndisókna. 0-0 í hálfleik.

Selfyssingar voru hressari í upphafi seinni hálfleiks og Viðar Kjartansson ógnaði stöðugt marki Fylkis. Hann fékk tvö ágæt færi áður en hann fékk sannkallað dauðafæri á 55. mínútu. Jón Daði Böðvarsson tók þá aukaspyrnu fyrir utan vítateig sem Bjarni Þórður Halldórsson, markvörður Fylkis, varði. Viðar tók frákastið en skaut framhjá úr góðu færi.

Á 72. mínútu slapp Björgólfur Takefusa innfyrir vörn Selfoss þar sem Stefán Ragnar Guðlaugsson braut á honum. Brotið var ekki gróft en Stefán var aftasti varnarmaður og dómarinn gaf honum því rautt spjald. Uppúr aukaspyrnunni skoruðu Fylkismenn svo eftir að Ismet Duracak hafði slegið boltann út í teiginn fyrir fætur Ingimundar Óskarssonar sem skoraði auðveldlega.

Tveimur mínútum síðar komust Fylkismenn í 0-2. Babacar Sarr braut af sér fyrir utan vítateiginn og uppúr aukaspyrnunni setti Finnur Ólafsson boltann í netið.

Öll sund virtust nú lokuð fyrir þá vínrauðu en eftir annað mark Fylkis kviknaði fyrst einhver neisti hjá Selfyssingum. Þeir sóttu látlaust að marki Fylkis og Jon Royrane fékk fínt færi áður en Ólafur Karl Finsen skoraði frábært mark á 89. mínútu. Jón Daði vippaði boltanum innfyrir vörn Fylkis og Ólafur afgreiddi boltann viðstöðulaust í netið.

Í uppbótartíma reyndi Babacar Sarr skot að marki sem fór hátt yfir en síðasta færi leiksins fékk Viðar Örn sem slapp innfyrir en Bjarni Þórður varði meistaralega frá honum og tryggði Fylkismönnum þrjú stig.

Selfoss er því áfram í 10. sæti með 7 stig en þar fyrir neðan eru Fram og Grindavík með 6 og 3 stig.