Forystufólk heiðrað á héraðsþingi

Góð mæting var á héraðsþing Héraðssambandsins Skarphéðins sem haldið var á Selfossi sl. laugardag, þrátt fyrir leiðindaveður, en mjög hvasst var þennan dag.

Það hefði verið nokkur sérstakt að þurfa að fresta þinginu annað árið í röð, en í fyrra var þinginu frestað vegna veðurs í fyrsta sinn í sögu sambandsins. Þinghaldið gekk vel og stóðst að mestu tímaáætlun, en dagskrá þingsins var stytt nokkuð að þessu sinni.

Sigríður Anna Guðjónsdóttir Selfossi og Þuríður Ingvarsdóttir Selfossi voru sæmdar silfurmerki HSK. Starfsmerki UMFÍ hlutu þeir Baldur Gauti Tryggvason Umf. Baldri og Stefán Geirsson Umf. Samhygð. Silfurmerki ÍSÍ hlaut Guðmundur Jónasson gjaldkeri HSK.

Reikningar sambandsins voru lagðir fram og samþykktir samhljóða. 482.986 kr. tap varð af rekstri sambandsins, sem skýrist að stærstum hluta af mun meiri þátttöku á Unglingalandsmótinu en gert var ráð fyrir. Sambandið skuldar ekkert og er eigið fé 17,4 milljónir.

Breytingar urðu á stjórn sambandsins en hana skipa nú Guðríður Aadnegard formaður, Guðmundur Jónasson gjaldkeri, Helgi S. Haraldsson varaformaður, Anný Ingimarsdóttir ritari og Rut Stefánsdóttir meðstjórnandi. Í varastjórn eru Gestur Einarsson, Baldur Gauti Tryggvason og Olga Bjarnadóttir.

Ýmis sérverðlaun voru veitt á þinginu. Íþróttafélagið Dímon var stigahæsta félagið, Frjálsíþróttaráð HSK fékk unglingabikar HSK og fimleikadeild Umf. Selfoss hlaut foreldrastarfsbikar HSK. Þá var Guðmundur Kr. Jónsson Umf. Selfoss valinn öðlingur ársins.

Fyrri greinForeldrar vilja stytta sumarfrí leikskólans
Næsta greinMerki félaga á sýningu