„Förum ekki fram úr okkur”

Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars, var ánægður með hugarfar Hamarsliðsins í kvöld sem var gjörbreytt frá síðasta leik.

„Við mættum loksins tilbúnar, eitthvað sem við vorum langt í frá að vera í fyrstu tveimur leikjunum. Við höldum okkur samt algjörlega á jörðinni og förum ekki fram úr okkur við þetta. Við erum að spila mjög vel en það er einn sigurleikur eftir í þessu einvígi,” sagði Ágúst í samtali við sunnlenska.is.

Jaleesa Butler og Slavica Dimovska hafa verið sterkustu burðarásar Hamars í vetur en þær áttu rólegt kvöld og aðrir leikmenn stigu upp. Dimovska stjórnaði sóknarleiknum reyndar vel og Butler lék vel í vörninni en þær skoruðu 6 og 7 stig í leiknum. Ágúst segir ekkert óeðlilegt við þetta.

„Við töluðum um það eftir síðasta leik að við værum mikið að treysta á sömu leikmennina og við dreifðum álaginu meira í kvöld. Jaleesa, sem að mínu mati er besti leikmaðurinn í þessari deild, skoraði ekkert í fyrri hálfleik og sex stig í leiknum öllum. Það segir okkur fullt um Hamarsliðið en það segir okkur líka hvernig karakter hún er. Hún getur stigið til hliðar og hleypt öðrum að en svo lengi sem liðinu gengur vel þá er hún ánægð,” segir Ágúst.