Forsala á fimleikasýningu

Forsala aðgöngumiða á jólasýningu fimleikadeildar Umf. Selfoss verður í anddyri Vallaskóla kl. 16-19 í dag, föstudag.

Eins og undanfarin ár stendur fimleikadeild Umf. Selfoss fyrir glæsilegri jólasýningu sem allir iðkendur deildarinnar taka þátt í. Íþróttahús Vallaskóla mun því iða af lífi og fjöri á morgun, laugardaginn 11. desember, en sýningar verða kl. 10, 12 og 13:30.

Auk þess að selja miða í forsölu í dag munu stelpurnar í meistaraflokkum selja notaðan en vel meðfarinn fatnað og fylgihluti á sanngjörnu verði.
Þema sýningarinnar þetta árið er „Fríða og dýrið”. Við fylgjumst með Bellu sem kynnist ljótu skrímsli. Boðskapur ævintýrisins er góður því Fríða og allir sem koma við sögu hjálpast að við að finna hið góða í skrímslinu og aflétta álögunum sem á honum hvíla. Sögumaður er Hjörtur Benediktsson áhugaleikari með meiru.

Aðgangseyrir fyrir 16 ára og eldri er 500 krónur og gildir miðinn á allar sýningar.

Í anddyri Vallaskóla verður jóla – og kaffihúsastemming. Til sölu verður súpa, brauð og fleiri veitingar. Meistaraflokksstelpurnar selja jólakort, eiguleg föt, fylgihluti o.fl.

Fyrri greinAfmælishelgi í Hvíta
Næsta greinGaman á jólamóti