„Forréttindi að vera hluti af þessu liði“

Markvörðurinn Jóhann Ólafur Sigurðsson og miðvörðurinn Þóra Margrét Ólafsdóttir voru útnefnd leikmenn ársins á lokahófi knattspyrnudeildar Selfoss í Hvítahúsinu í kvöld.

Valið kom fáum á óvart enda var Jóhann besti maður karlaliðs Selfoss í flestum leikjum sumarsins. Þóra Margrét var akkerið í varnarleik kvennaliðs Selfoss og einn traustasti leikmaður liðsins sem var hársbreidd frá því að komast uppúr 1. deildinni.

Jóhann Ólafur var stoltur af viðurkenningunni sem hann fékk í kvöld og hann segir sumarið hafa verið skemmtilegt.

„Árangurinn var náttúrulega ekki nógu góður fyrst að við féllum en miðað við að þetta er fyrsta árið okkar í úrvalsdeild þá er það kannski ekki óvænt að við skyldum falla. En við munum koma upp aftur reynslunni ríkari,“ sagði Jóhann Ólafur í samtali við sunnlenska.is.

„Það var gaman að upplifa þetta sumar og hreinlega forréttindi að fá að vera hluti af fyrsta Selfossliðinu sem spilar í úrvalsdeild. Það er alveg frábært,“ sagði markvörðurinn knái.

Samningur Jóhanns Ólafs við Selfyssinga rennur út nú í lok tímabils og frammistaða hans í deildinni hefur vakið áhuga annarra liða. Heimildir sunnlenska.is segja að Selfyssingar leggi mikla áherslu á að framlengja samninginn við Jóhann. En hugsar hann sér til hreyfings? „Ég hef ekki hugsað neitt um það hingað til. Það kemur bara í ljós fljótlega og vonandi verð ég bara áfram á Selfossi.“

Jóhann hefur unnið náið með Halldóri Björnssyni markvarðaþjálfara frá því síðasta vetur en líkamlegt atgerfi Jóhanns var ekki það besta um síðustu áramót. Hann ætlar að fara varlega í kleinuhringina fram að áramótum. „Já, ætli maður verði ekki að halda sér við fyrst að maður er kominn í almennilegt form,“ segir leikmaður ársins hlæjandi að lokum.

Af öðrum verðlaunum kvöldsins má nefna að Jón Daði Böðvarsson og Bríet Mörk Ómarsdóttir voru valin efnilegustu leikmennirnir. Þá lyftu Sævar Þór Gíslason og Katrín Ýr Friðgeirsdóttir markakóngsbikurunum. Ingþór Jóhann Guðmundsson og Dagný Pálsdóttir fengu bikar fyrir framför og ástundun. Gunnar Borgþórsson og Lena Rut Guðmundsdóttir fengu Guðjónsbikarana sem veittir eru félagslega sterkum leikmönnum. Markvörðurinn Aron Valur Leifsson var valinn besti leikmaður 2. flokks.