Formannsskipti hjá Baldri

Formannsskipti urðu á aðalfundi Ungmennafélagsins Baldurs sem haldinn var í síðustu viku. Rúnar Hjálmarsson frá Langsstöðum er nýr formaður félagsins.

Baldur Gauti Tryggvason sem verið hefur formaður síðastliðin þrjú ár gaf kost á sér til áframhaldandi starfa en bauð jafnframt upp á það að ef fólk vildi skipta um formann þá
væri hann tilbúinn að taka að sér önnur störf innan stjórnar. Kosning um formann endaði því þannig að þeir höfðu sætaskipti, Baldur og Rúnar sem áður var varaformaður.

Þeir Ágúst Hjálmarsson og Einar Magnússon varamenn í stjórn gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Í þeirra stað voru kosin þau Jón Gautason og Hjördís Björg Viðjudóttir.

Félagið var rekið með rúmlega 300.000 kr. hagnaði árið 2012 en meðal stærstu tekjuliða félagsins er þorrablót og Unglingalandsmót UMFÍ. Nú er svo komið að Umf. Baldur á í sjóðum á fjórðu milljón króna og vill félagið fara að nota þessa peninga til þarflegra hluta. Eru allar hugmyndir þar um vel þegnar og skulu sendast til stjórnarmeðlima.

Um tuttugu manns mættu á aðalfundinn og var ánægja með mætinguna.

Fyrri greinGeiri og Regína taka við Stað
Næsta greinNýjar áherslur á gamalgrónum veitingastað