Formaðurinn bjartsýnn á að spilað verði í Vallaskóla

Magnús Matthíasson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss, segir að ástæða sé til bjartsýni eftir fund stjórnar deildarinnar með fulltrúum Sveitarfélagsins Árborgar, HSÍ og Umf. Selfoss í dag.

Eftir úttekt á íþróttahúsi Vallaskóla í júní hafði HSÍ sett Selfyssingum stólinn fyrir dyrnar í að meistaraflokkur karla gæti leikið heimaleiki sína í Olís-deildinni í vetur í húsinu.

Gerðar voru athugasemdir hvað varðar öryggissvæði, of stutt sé frá endalínum og hliðarlínum að vegg. Þá séu varamannabekkir nánast inni á vellinum og aðstöðu vanti fyrir fatlaða og léleg aðstaða sé fyrir fjölmiðlamenn. HSÍ myndi ekki veita keppnisleyfi nema til komi breytingar á húsinu, eða tímasett áætlun sveitarfélagsins á slíkum breytingum.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is hefur sveitarfélagið leitað leiða til að vinna að bráðabirgða úrlausn síðan HSÍ sendi bæjaryfirvöldum skýrsluna og eftir fundinn í dag telur Magnús að viðunandi lausn muni finnast á málinu.

„Það er ástæða til að ætla að allir geti gengið sáttir frá borði og að spilað verði í íþróttahúsi Vallskóla í vetur,” segir formaðurinn.

Að sögn Magnúsar hefur húsið verið á undanþágu frá HSÍ til keppni um árabil. Meistaraflokkur kvenna hefur leikið sína heimaleiki í efstu deild þar í nokkur ár.

Magnús segir að handknattleiksdeildin sé háð velvilja sveitarfélagsins þegar kemur að aðstöðu til handknattleiksiðkunnar. Stjórn hafi þrýst á bæjaryfirvöld að fara í úrbætur á húsinu en líklegur kostnaður við þær sé um 50 milljónir króna. Það feli í sér að rífa neðsta hluta núverandi stúku og koma fyrir útdraganlegri stúku þess í stað. Slíkt tekur hins vegar tíma.