Fór óvart í þjálfun áhaldafimleika og er danskur meistari í dag

María Kristín H. Antonsdóttir, fyrrum yfirþjálfari hjá fimleikadeild Hamars, flutti til Danmerkur fyrir rúmlega þremur árum síðan og hefur síðan þá starfað sem fimleikaþjálfari hjá KG66 í Kaupmannahöfn.

KG66 er eitt þekktasta fimleikafélagið í áhaldafimleikum í Danmörku og á Norðurlöndunum.

Fimleikasamband Íslands veitti Maríu hjálparhönd við að leita að þjálfarastarfi og sendi auglýsingu á danska fimleikasambandið. Fyrir smá þýðingarmisskilning hafði FSÍ kynnt Maríu sem þjálfara í áhaldafimleikum en hún hafði aldrel starfað við það. Þessi misskilningur var leiðréttur í atvinnuviðtalinu og KG66 gaf íslensku stelpunnin séns eftir viðtalið og hefur það gengið vel hjá henni allar götur síðan.

Í apríl síðastliðnum tók hún svo við sem aðstoðaryfirþjálfari í afrekshóp félagsins og starfar með hinni ungversku Bernadett Balazs, yfirþjálfara, sem keppti meðal annars fyrir Ungverjaland á Ólympíuleikunum 1992 í áhaldafimleikum.

Árangur Maríu Kristínar sem þjálfara var svo toppaður um síðustu helgi þegar stúlknahópur KG66 tryggði sér tryggði sér Danmerkurmeistaratitilinn 2016 í hópkeppni áhaldafimleika. Bestu stúlkurnar í KG66 hópnum keppa fyrir hönd Danmerkur á Evrópu- og heimsmeistaramótum en jafnfram er stefnt á þátttöku á næstu Ólympíuleikum ef allt gengur upp og lágmörk nást.

Fyrri greinFjölmenni á samstöðufundi á Selfossi
Næsta greinHamarskeppendur HSK meistarar