Fonsi sökkti toppliðinu með þrennu á níu mínútum

Alfonso Porras. Ljósmynd/Uppsveitir

Uppsveitir tóku á móti toppliði Álafoss í 5. deild karla í knattspyrnu á Laugarvatni í dag. Úr varð mikill markaleikur.

Uppsveitir óðu í færum í fyrri hálfleik en það var ekki fyrr en á 31. mínútu að Kristinn Sölvi Sigurgeirsson kom boltanum í netið. Álafoss jafnaði tveimur mínútum síðar og komst svo yfir í kjölfarið en Kristinn Sölvi var aftur á ferðinni í uppbótartíma fyrri hálfleiks og jafnaði 2-2.

Þannig stóðu leikar í hálfleik en strax á 4. mínútu seinni hálfleiks fengu Uppsveitir vítaspyrnu og úr henni skoraði fyrirliðinn Pétur Geir Ómarsson. Álafoss jafnaði 3-3 um miðjan seinni hálfleikinn en þá var komið að þætti ítalska framherjans Alfonso ‘Fonsi’ Porras. Hann gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu á níu mínútna kafla undir lok leiks og tryggði Uppsveitum 6-3 sigur.

Álafoss er áfram á toppnum með 18 stig en Uppsveitir lyftu sér upp í 5. sætið og sitja þar með 9 stig.

Fyrri greinÁrborg kreisti fram jafntefli – enn tapar Hamar
Næsta greinKári klófesti fyrsta Ölfusárlaxinn