„Fólk lagði ennþá meira á sig“

„Keppnislega gekk þetta ótrúlega vel, veðurfarslega hefði getað gengið betur,“ sagði Guðríður Aadnegard, formaður HSK, eftir að 27. Landsmóti UMFÍ á Selfossi var slitið síðdegis í dag.

„Þrátt fyrir veðrið þá held ég að hér geti allir unað glaðir við sitt. Fólk lagði ennþá meira á sig til þess að mótið gæti heppnast sem best þannig að ég er mjög ánægð með þetta,“ sagði Guðríður í samtali við sunnlenska.is.

Veðrið setti strik í reikninginn hjá mótshöldurum, sérstaklega á föstudaginn, en þá var brugðist skjótt við og setningarathöfnin var meðal annars færð inn í íþróttahús Vallaskóla.

„Setningarhátíðin var glæsileg og ég hugsa að hún hefði ekki orðið eins glæsileg úti. Þannig að kannski er bara setningarathöfn innandyra komin til að vera. Tónlistaratriðin voru frábær og öll umgjörð glæsileg þannig að „plan-b“ tókst eins vel og kostur var á,“ segir Guðríður sem var stolt af sínu keppnisliði á mótinu.

„Ég náði nú ekki að fylgjast ýkja mikið með íþróttakeppninni en ég sá eitt og annað og mér fannst HSK fólkið standa sig frábærlega í öllum greinum, á öllum sviðum. Að vísu verð ég að taka það fram að mér finnst árangur Ólafs Guðmundssonar einstakur. Hann var keppandi, liðsstjóri og sérgreinastjóri og hafði í mörg horn að líta en hann stóð uppi sem stigahæsti karlinn í frjálsíþróttunum – leiki aðrir það eftir.“

HSK sigraði heildarstigakeppni mótsins með yfirburðum eftir að hafa horft á eftir gullinu á undanförnum þremur mótum. „Okkur tókst ekki að vinna 2004, 2007 og 2009 en það tókst núna enda að baki okkar um það bil 300 keppendur. Ef það er ekki hægt að vinna landsmót með svona glæsilegum hópi þá veit ég ekki hvað þarf til,“ sagði Guðríður að lokum.

Fyrri greinLandsmótinu slitið – HSK vann heildarstigakeppnina
Næsta greinHótel Skógar kaupa Árhús