Flugeldasýning í fyrsta sigri Hamars – Ægir tapaði

Hamarsmenn voru í feiknastuði í kvöld þegar þeir unnu sinn fyrsta leik í 3. deild karla í knattspyrnu en á sama tíma tapaði Ægir í 2. deildinni.

Tómas Hassing kom Hamri yfir á 7. mínútu og hann bætti svo öðru marki við á 22. mínútu. ÍH minnkaði muninn í 1-2 á 41. mínútu en Samúel Arnar Kjartansson átti síðasta orðið í fyrri hálfleik og tryggði Hamri 1-3 forystu í leikhléinu.

Tómas var aftur á ferðinni strax á 2. mínútu síðari hálfleiks og Samúel bætti fimmta marki Hamars við á 69. mínútu. Hvergerðingar voru ekki hættir því Tómas skoraði sitt fjórða mark fjórum mínútum síðar og breytti stöðunni í 1-6.

ÍH-ingar klóruðu í bakkann á 86. mínútu en Alex Birgir Gíslason varð þá fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Það reyndist síðasta mark leiksins og lokatölur 2-6.

Þrátt fyrir sigurinn eru Hamarsmenn sjö stigum frá öruggu sæti þegar mótið er hálfnað.

Ægismenn voru farnir að daðra við toppbaráttuna í 2. deildinni en þeir eru komnir niður í 7. sætið eftir tvö töp í röð. Ægir fékk Aftureldingu í heimsókn í kvöld þar sem heimamenn steinlágu, 0-3.

Afturelding komst yfir strax á 2. mínútu með marki úr vítaspyrnu og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks. Gestirnir bættu svo við tveimur mörkum þegar nokkuð var liðið á síðari hálfleikinn án þess að Ægismenn næðu að svara fyrir sig.

Fyrri greinSelfoss færist niður töfluna
Næsta greinBreytingar á stjórn SASS