Flúðaskóli var einn þriggja skóla sem hlaut útdráttarverðlaun eftir að verkefninu Göngum í skólann lauk á dögunum.
Auk Flúðaskóla voru það Akurskóli í Reykjanesbæ og Grunnskóli Grundarfjarðar sem voru dregnir út. Skólarnir fá hver um sig 150 þúsund króna gjafabréf frá Altis en það má nota til að kaupa íþróttabúnað fyrir íþróttakennslu eða til afnota á skólalóð.
Flúðaskóli tók virkan þátt í Göngum í skólann með fjölbreyttri dagskrá sem innihélt meðal annars göngu- og útivist, sköpunarverkefni með krít og vatnslitum, fjallgöngu á Miðfell, fjöruferð og útihlaup í íþróttum.
Í tilkynningu frá ÍSÍ segir að skólar í dreifbýli, þar sem börn þurfa að notast við skólabíla, hafi margir hverjir aðlagað verkefnið að sínum þörfum sem sé virkilega jákvætt og skemmtilegt. Stundum þurfi að hugsa út fyrir boxið og það var greinilega gert á Flúðum.
Allir skólarnir sem tóku þátt í átakinu sýndu mikinn metnað í þátttöku sinni og nýttu tækifærið til að hvetja nemendur til að ganga eða velja annan virkan ferðamáta til og frá skóla.
Göngum í skólann er verkefni á vegum ÍSÍ og er styrkt að hluta frá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (European Commission) undir formerkjum Íþróttaviku Evrópu.
