Flúðaskóli og Grunnskólinn á Hellu skákuðu öðrum

Grunnskólinn á Hellu sigraði í 8.-10. bekk. Ljósmynd/Orri Ellertsson

Suðurlandsmót grunnskóla í skák fór fram síðastliðinn mánudag í Félagsheimili Hrunamanna á Flúðum. Mótið er sveitakeppni fyrir grunnskóla á Suðurlandi.

Að þessu sinni var þátttaka í mótinu með allra besta móti en tæplega 100 keppendur tóku þátt fyrir hönd sjö grunnskóla. Grunnskólinn í Vestmannaeyjum var einnig skráður til leiks en vegna óhagstæðrar vindáttar var ekki siglt til Landeyjahafnar og þar af leiðandi gátu Eyjamenn ekki mætt til leiks.

Teflt var í tveimur flokkum. Annars vegar í 1.-7. bekk og hins vegar í 8.-10. bekk, voru 4 nemendur í hverri sveit. Gauti Páll Jónsson, fultrúi skáksambands Íslands, var mótastjóri og gekk mótið afar hratt og vel fyrir sig undir hans stjórn. Sá hann einnig um að afhenda veglega verðlaunagripi til sigurvegarana í mótslok.

Spennan var þónokkur um verðlaunasæti en svo fór að lokum að a-sveit Flúðaskóla sigraði í yngri flokknum en Grunnskólinn á Hellu í þeim eldri. Aðeins munaði einum vinning á 1. og 2. sæti í báðum flokkum. Flúðaskóli nældi sér í brons í báðum flokkum og náði sér þar með í fjögur af þeim sex verðlaunum sem í boði voru.

Úrslit mótsins:
1.-7. bekkur (alls kepptu 17 sveitir)
1.sæti Flúðaskóla a-sveit 19 v
2.sæti Vallaskóli 18 v.
3.sæti Flúðaskóla c-sveit 15 v.

8.-10. bekkur (alls kepptu 6 sveitir)
1.sæti Grunnskólinn á Hellu 18 v.
2.sæti Flúðaskóli a-sveit 17 v.
3.sæti Flúðaskóli b-sveit 12 v.

A-sveit Flúðaskóla sigraði í 1.-7. bekk. Ljósmynd/Orri Ellertsson
Fyrri greinUngu mennirnir skelltu Fjölni
Næsta greinFjölbreytt úrval skotvopna til sýnis