Flottur sigur hjá Hamri

Hamarskonur unnu virkilega góðan sigur á KR á útivelli í Domino's-deild kvenna í körfubolta í kvöld. Lokatölur í vesturbænum voru 68-85.

Í 1. leikhluta breytti Hamar stöðunni úr 11-11 í 14-24 en KR komst aftur yfir í 2. leikhluta, 32-29. Þá kom frábær sprettur hjá Hamarskonum sem skoruðu grimmt og tryggðu sér þrettán stiga forystu í hálfleik, 37-50.

Munurinn hélst í um það bil tíu stigum lengst af 3. leikhluta en Hamar skoraði síðustu átta stigin í leikhlutanum og forskotið var þá sautján stig, 51-68. Hamar hélt haus út leikinn og tryggði sér öruggan og sanngjarnan sigur.

Chelsie Schweers var stigahæst hjá Hamri með 37 stig, Íris Ásgeirsdóttir skoraði 20 og Marín Davíðsdóttir átti flottan leik með 12 stig, 17 fráköst og 6 stoðsendingar. Fanney Lind Guðmundsdóttir skoraði 8 stig, Katrín Eik Össurardóttir 5 og Kristrún Rut Antonsdóttir 3.

Hamarskonur eru nú komnar upp í fimmta sæti deildarinnar með 20 stig og mæta toppliði Snæfells á heimavelli í næstu umferð á sunnudaginn.

Fyrri grein83 keppendur tóku þátt
Næsta greinValentínus eða íslenskur herramaður