Flottir Selfyssingar á Shellmóti

A-lið Selfoss spilaði til úrslita gegn Stjörnunni á Shellmótinu í knattspyrnu sem lauk í Vestmannaeyjum í gær. Stjarnan sigraði 2-1 í úrslitaleiknum.

Úrslitaleikurinn var hörkuspennandi þar sem bæði lið spiluðu sambabolta. Liðið sem spilaði til úrslita var skipað þeim Alex, Aroni Emil, Þorsteini, Hauki Páli, Hauki Þrastar, Stefáni Þór, Valdimar og Martin Bjarna. Liðið var ósigrandi frá upphafi móts, en varð að lúta í gras fyrir Stjörnunni í úrslitaleiknum. Það var eini leikurinn sem tapaðist hjá liðinu.

Selfoss 2, skipað þeim Reynold, Tristan, Val, Erlingi, Arnari, Þórhalli, Sebastian og Gunnari fylgdi eftir velgengni Selfoss 1 með því að spila í efri hluta mótsins. Liðið var einu marki frá því að komast í úrslit síns riðils en innbyrðis viðureign tveggja liða úr vesturbæ Reykjavíkur gerir 3. sætið innan seilingar fyrir þessa fræknu sunnlensku kappa.

Selfoss 3, skipað þeim Daníel Victor, Aroni Einars, Einari, Elfari, Hlyni, Tryggva Sigurðs, Tryggva Þóris, Karli og Gabríel, sigraði í jafningjaleik gegn Garðbæingum í sínum riðli í miðri mótaskipan. Strákarnir skipuðu forsíðu mbl.is eftir flott viðtal við þá stráka þar sem þeir lýstu öllu því besta sem góðu fótboltamóti sæmir. Strákarnir, sem allir eru á yngra árinu, eiga því vafalaust framtíðina fyrir sér og geta því rakið slóð úrslitaliðsins að ári.

Selfoss 4, skipað þeim Arnóri, Guðmundi, Þorbergi, Guðjóni, Sigurði Hrafni, Sigurði Flemming, Óliver og Vilhelm stóð í baráttunni af miklum drengskap og með gleði að markmiði. Þeir spiluðu um miðsætið í sínum riðli.

Selfoss 5, skipað Arnari Svan, Arna, Ármanni, Finni, Jóni Karli, Óla Ben, Sigmari og Magnúsi Breka dró að landi 2-1 sigur í gær eftir að hafa átt á brattann að sækja í mótinu. Gleðin var svo mikil að í lýsingu eins leikmanns eftir mót lýsti hann ekki aðeins hversu flott mörk síns eigin liðs voru heldur einnig voru mærð mörk andstæðingsins, góður keppnisandi þar á ferð.

Martin Bjarni Guðmundsson var svo valinn í Shellmótsliðið og stóð sig að sjálfsögðu með prýði, skoraði eitt og lagði upp eitt.

Á hverju móti eru veitt verðlaun til prúðustu liðanna á mótinu. Allir starfsmenn mótsins taka þátt í þessu vali og koma ábendingum til mótsstjórnar, þannig að það dugar ekki að vera stilltur á einum stað og sleppa sér svo annars staðar. Að þessu sinni þóttu Akranes og Selfoss vera með prúðustu liðin á mótinu. Eins og flestir vita eru þetta ekki síður mikilvæg verðlaun og sínir þroska þegar menn kunna að haga sér.

Þjálfarar strákanna eru þeir Stefán Ragnar Guðlaugsson og Sigmar Karlsson.