„Flott frammistaða“

Kvennalið Selfoss lyfti sér upp í 4. sæti Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu með öruggum 2-0 sigri á JÁVERK-vellinum á Selfossi í kvöld.

„Þetta var flott frammistaða hjá liðinu, við vorum að spila einfalt og spila eins og lið. Við töluðum mikið og vorum jákvæðar og gerðum það sem lagt var upp með, og það skilaði sér. Við vorum mjög svekktar eftir KR leikinn og ætluðum að gera betur í kvöld, þannig að þetta var mjög flott,“ sagði Magdalena Reimus í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Við lokuðum vel á FH-ingana þannig að þær voru ekki að skapa mikið, vörnin stóð sig vel, öll línan, og Heiðdís og Brynja stýrðu þessu vel. Við Karitas höfðum líka nóg að gera á miðjunni þannig að þetta var mjög skemmtilegt,“ sagði Magdalena, sem skoraði tvívegis í leiknum, þó aðeins annað markið hafi talið.

„Ég fékk góða sendingu innfyrir og þetta var gott slútt. Í fyrra markinu var ég dæmd rangstæð og ég held að það hafi nú bara verið rangur dómur, það þarf að skoða það eitthvað betur,“ sagði Magdalena hlæjandi að lokum.

Leikurinn var jafn lengst af og einkenndist af stöðubaráttu úti á vellinum. Færin voru ekki mörg, hvorki hjá Selfyssingum eða FHingum, en ísinn var brotinn á 22. mínútu. Kristrún Rut Antonsdóttir vann þá boltann framarlega á vellinum, renndi honum út til vinstri á Evu Lind Elíasdóttur sem átti góða fyrirgjöf beint á kollinn á Lauren Hughes, sem stangaði boltann í netið.

Selfyssingar fengu betri færi til þess að bæta við mörkum í fyrri hálfleik, en þó að FH hafi átt margar álitlegar sóknir þá brotnuðu þær allar á varnarmönnum Selfyssinga, eða enduðu í höndunum á Chanté Sandiford í marki Selfoss.

Staðan var 1-0 í hálfleik og leikurinn spilaðist svipað í síðari hálfleik. FH ógnaði lítið og Selfoss gerði út um leikinn á 68. mínútu. Lauren Hughes var arkitektinn að því marki, en hún renndi boltanum inn á Magdalenu Reimus sem skoraði örugglega, ein á móti markverði. Magdalena hafði skömmu áður skorað skallamark sem dæmt var af vegna rangstöðu, en Selfyssingar létu margoft góma sig rangstæðar í landhelgi FH-inga, þó nokkrir þeirra dóma hafi verið mjög vafasamir.

Eftir annað mark Selfoss fjaraði leikurinn út og FH liðið var ekki líklegt til að minnka muninn.

Selfoss hefur nú níu stig í 4. sæti deildarinnar en FH er með sjö stig í 6. sætinu.

Fyrri greinTveir dýrbítar aflífaðir – þriggja annarra leitað
Næsta greinÁrborgarar áfram taplausir – Stokkseyri fékk skell