Flóaskóli sigraði í Skólahreysti

Sigurlið Flóaskóla ásamt stuðningsliði sínu. Ljósmynd/Hulda Kristjánsdóttir

Eftir æsispennandi keppni sigraði Flóaskóli í Skólahreysti en úrslitakeppnin var haldin í Mýrinni í Garðabæ í kvöld og tóku tólf skólar þátt.

Þegar stigin höfðu verið talin saman voru lið Flóaskóla og Laugalækjarskóla jöfn að stigum með 57,5 stig en þar sem Flóaskóli var ofar á blaði í fleiri keppnisgreinum, þremur af fimm, þá voru gullverðlaunin þeirra. Lið Flóaskóla skipa þau Helgi Reynisson, sem sigraði í upphífingum í kvöld með 52 upphífingar, Ásrún Hansdóttir, Karólína Þórbergsdóttir og David Örn Aitken Sævarsson ásamt varamönnunum Kristófer Mána Andrasyni og Magneu Bragadóttur. Þjálfari liðsins er Örvar Rafn Hlíðdal.

Laugalandsskóli í Holtum náði svo þeim frábæra árangri að verða í 3. sæti með 49 stig og mikla athygli vakti að Sunnlendingar áttu þrjá skóla af þeim tólf sem komust í úrslit en Grunnskólinn á Hellu mætti einnig til leiks í kvöld og varð í 10. sæti.

Flóaskóli hefur stimplað sig inn sem einn af „stóru“ skólunum í Skólahreystinni og komist á verðlaunapall þrisvar sinnum á síðustu fjórum árum en skólinn sigraði einnig í keppninni árið 2022.

Lið Flóaskóla fagnar sigri. Ljósmynd/Skólahreysti
Laugalandsskóli í Holtum varð í 3. sæti. Ljósmynd/Skólahreysti
Fyrri greinSjö fluttir með þyrlum á slysadeild
Næsta greinOpinn fundur um atvinnulífið í Árborg